Staðnám, fjarnám og önnur námsform

Háskóli Íslands leggur áherslu á sífellda þróun kennsluhátta og námsframboðs. Skólinn býður öflugt staðnám á meira en 300 námsleiðum og á mörgum þeirra er hægt að taka stök námskeið eða jafnvel allstóran hluta námsins í fjarnámi. Þá fer þeim námsleiðum fjölgandi sem hægt er að ljúka alfarið í fjarnámi. Hafa ber í huga að í sumum kennslugreinum er eðli námsins þannig að erfitt er að bjóða það sem fjarnám.

Í kennsluskránni er að finna uppýsingar um námsform námskeiða og námsleiða, þ.e. hvort um er að ræða staðnám, fjarnám eða önnur námsform. Skilgreind hafa verið fjögur námsform fyrir námskeið og jafn mörg fyrir námsleiðir. Lesa má skilgreiningarnar hér að neðan. 

Í Námskeiðaleit og Námsleiðaleit má auðveldlega kalla fram yfirlit um námskeið og námsleiðir eftir mismunandi námsformum.

Námskeið

Staðnám 
Námskeiðið er skipulagt þannig að námið fer fram á tilteknum tíma og stað (t.d. í kennslurými) og gert er ráð fyrir rauntímaþátttöku nemenda.

Fjarnám 

Námskeiðið er skipulagt þannig að námið fer fram á netinu og gert er ráð fyrir rauntímaþátttöku nemenda á netfundum, í staðlotum og/eða vettvangsnámi. Nemendur fylgja skipulagi námskeiðs samkvæmt kennsluáætlun og skiladögum verkefna. Ef próf er í námskeiðinu, þá þurfa nemendur að þreyta það á þeim tíma sem tilgreindur er.

Netnám 

Námskeiðið er skipulagt þannig að það fer fram á netinu og ekki er gert ráð fyrir rauntímaþátttöku, en nemendur fylgja skipulagi námskeiðs samkvæmt kennsluáætlun og skiladögum verkefna. Ef próf er í námskeiðinu, þá þurfa nemendur að þreyta það á þeim tíma sem tilgreindur er.

Sjálfsnám 
Fyrirkomulag námskeiðsins byggist á samkomulagi milli nemanda og kennara og námið fer fram óháð tíma og stað (t.d. lesnámskeið, einstaklingsverkefni).

Athugið að hugsanlegt er að námskeið sé merkt sem bæði staðnám og fjarnám í kennsluskrá. Það þýðir að hægt er að ljúka því annaðhvort í staðnámi eða fjarnámi. Á sama hátt getur námskeið verið flokkað sem bæði fjarnám og netnám o.s.frv.

Námsleiðir

Staðnámsleið 
Mögulegt er að ljúka námsleiðinni alfarið eða að langmestu leyti í staðnámi. Það þýðir að námskeið eru almennt skipulögð þannig að námið fer fram á tilteknum tíma og stað (t.d. í kennslurými). Hugsanlegt er að einstaka námskeið, skyldu- og/eða valnámskeið, séu aðeins í boði í fjarnámi eða netnámi.

Fjarnámsleið

Mögulegt er að ljúka námsleiðinni alfarið í fjarnámi. Það þýðir að námskeið eru skipulögð þannig að námið fer fram á netinu og gert er ráð fyrir rauntímaþátttöku nemenda á netfundum, í staðlotum og/eða vettvangsnámi. Nemendur fylgja skipulagi námskeiða samkvæmt kennsluáætlun og skiladögum verkefna. Ef próf eru í námskeiðum, þá þurfa nemendur að þreyta þau á þeim tíma sem tilgreindur er. Þó að mögulegt sé að ljúka námsleiðinni alfarið í fjarnámi, þá má vera að einhver valnámskeið séu eingöngu í boði í t.d. staðnámi.

Netnámsleið 

Mögulegt er að ljúka námsleiðinni alfarið í netnámi. Það þýðir að námskeið eru skipulögð þannig að námið fer fram á netinu og ekki er gert ráð fyrir rauntímaþátttöku, en nemendur fylgja skipulagi námskeiða samkvæmt kennsluáætlun og skiladögum verkefna. Ef próf eru í námskeiðum, þá þurfa nemendur að þreyta þau á þeim tíma sem tilgreindur er. Þó að mögulegt sé að ljúka námsleiðinni alfarið í netnámi, þá má vera að einhver valnámskeið séu eingöngu í boði í t.d. staðnámi.

Blönduð námsleið
Námsform námskeiða er mismunandi, sum geta t.d. verið staðnámskeið en önnur fjarnámskeið o.s.frv.

Athugið að hugsanlegt er að námsleið sé merkt sem bæði staðnámsleið og fjarnámsleið í kennsluskrá. Það þýðir að hægt er að ljúka henni annaðhvort í staðnámi eða fjarnámi. 

 Sama síða á öðrum árum