Gestanám - opinberir háskólar

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum gerðu þ. 5. desember 2011 með sér samning um að opna fyrir aukinn aðgang nemenda að námskeiðum á milli skóla. Markmiðið er að auðvelda og hvetja nemendur til að gerast gestanemendur við aðra opinbera háskóla.

Gestanám

Gestanám er skilgreint sem nám sem er stundað utan heimaskóla. Gestanemandi er nemandi sem er skráður við ákveðinn opinberan háskóla (heimaskóla) en fær heimild til að skrá sig í einstök námskeið í öðrum opinberum háskóla (móttökuskóla), án þess að greiða skrásetningagjald þar, enda hafi nemandinn þegar greitt gjaldið í sínum heimaskóla. Báðir skólar þurfa að samþykkja umsókn nemanda um gestanám.

Heimaskóli ber ábyrgð á námsferli nemandans og tryggir að námskeið sem nemandi lýkur við móttökuskólann nýtist honum til lokaprófs (háskólagráðu) í heimaskóla. Heimaskóli sér jafnframt um miðlun upplýsinga um námsframvindu til LÍN. Heimaskóli og móttökuskóli mega samkvæmt samningi veita hvor öðrum upplýsingar um námsferil nemanda, ef þurfa þykir.

Inntökuskilyrði og kröfur um viðveru

Almennt skal miðað við að bakkalárnemandi hafi lokið einu ári við heimaskóla áður en hann getur sótt um að gerast gestanemandi. Ef ástæða þykir til getur heimaskóli einnig gert kröfu um lágmarksfjölda eininga sem nemandi skal ljúka áður en hann getur sótt um gestanám. Gestanemendur þurfa auk þess að uppfylla þær forkröfur sem kunna að gilda og skilyrði um undanfara einstakra námskeiða. Ef skólarnir þurfa að beita aðgangstakmörkunum í einstakar námsleiðir eða námskeið geta gestanemendur einnig þurft að uppfylla viðbótarkröfur. Gestanemendur verða jafnframt að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í hverju námskeiði um viðveru og þátttöku í kennslustundum. Ekki er hægt að ganga að því vísu að gestanám geti farið fram í fjarnámi.

Upplýsingar um fjarnám:
Háskóli Íslands Háskólinn á Akureyri Landbúnaðarháskóli Íslands Hólaskóli - Háskólinn á Hólum

Hvernig sækja skal um að verða gestanemandi

Nemandi sem óskar að verða gestanemandi við annan háskóla þarf að leggja fram formlega umsókn um gestanám hjá viðkomandi deild eða kennslusviði heimaskóla, í síðasta lagi fyrir 15. ágúst vegna haustmisseris og fyrir 15. desember vegna vormisseris. Sjá umsóknareyðublað HÍ hér að neðan. Deildarskrifstofa heimaskólans sér svo um að ganga endanlega frá umsókninni í samvinnu við móttökuskólann.

Gæta þarf að því að prófatímabil heimaskóla og móttökuskóla geta skarast, þ.e.a.s. próf í báðum skólum gætu mögulega farið fram á sama tíma. Sjá kennslualmanak HÍ.

ATHUGIÐ: Gestanemandi við Háskóla Íslands sem er með sérúrræði í námi/prófum við heimaskóla og óskar eftir sams konar úrræðum við HÍ þarf að sækja um það hjá Nemendaráðgjöf eigi síðar en 15. október á haustmisseri og 15. mars á vormisseri.

Umsókn um gestanám fyrir nemendur HÍ

Gestanámi lýkur

Þegar gestanámi lýkur þarf nemandi að óska eftir staðfestu afriti af námsferli sínum hjá móttökuskólanum sem hann framvísar til heimaskóla.

 Sama síða á öðrum árum