Inntökuskilyrði í grunnnám

Formleg inntökuskilyrði í bakkalárnám

Nemendur sem hefja nám til fyrstu háskólagráðu í Háskóla Íslands skulu hafa lokið stúdentsprófi, eða öðru lokaprófi á þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Deildir geta þó bundið aðgang að námsleiðum frekari skilyrðum, sjá nánar Reglur um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands, nr. 331/2022.

Lokapróf frá háskólabrú Keilis telst sambærilegt stúdentsprófi, en í sumum deildum HÍ er það þó bundið við lokapróf frá tiltekinni deild háskólabrúar. Í flestum deildum HÍ er litið á lokapróf frá háskólagrunni Háskólans í Reykjavík sem jafngilt stúdentsprófi og í mörgum deildum á það sama við um lokapróf frá háskólagátt Háskólans á Bifröst. Sjá nánar ákvæði einstakra deilda í reglum um inntökuskilyrði í grunnnám.

Þeir nemendur sem lokið hafa sem nemur eins árs námi (60 ECTS-einingum) frá viðurkenndum háskóla eða viðurkenndum skóla á háskólastigi geta talist uppfylla almenn inntökuskilyrði í grunnnám, enda þótt þeir hafi ekki lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi. Sjá einnig almennar upplýsingar um inntökuskilyrði.

Undanþágur frá inntökuskilyrðum í bakkalárnám

Samkvæmt samþykkt háskólaráðs 11. janúar 2024, um inntöku nýnema og aðhald með skráningum háskólaárið 2024-2025, ákveða forsetar fræðasviða, í samráði við sviðsstjóra kennslusviðs, hvort einstakar deildir viðkomandi fræðasviðs taki við umsóknum um undanþágur frá inntökuskilyrðum, sbr. 6. mgr. 47. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

 Sama síða á öðrum árum