Brot á reglum og agaviðurlög

Þung viðurlög eru í Háskóla Íslands við hvers konar misferli í prófum, verkefnavinnu og ritgerðasmíð. Nemanda sem staðinn er að misferli í prófi er vísað frá prófi. Jafnframt kann nemandinn að missa próftökurétt í öðrum námskeiðum á próftímabilinu. Einnig er heimilt að veita nemandanum áminningu eða víkja honum úr skóla, tímabundið eða fyrir fullt og allt. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi, svo sem ef nemandi leggur fram verkefni eða ritgerð þar sem hann gerir verk eða vinnu annarra að sinni eigin, eða vísar ekki til heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.

Verði nemandi uppvís að ámælisverðri hegðun, til dæmis ritstuldi eða misferli í prófi, ber viðkomandi kennara eða öðrum háskólastarfsmanni að vekja athygli deildarforseta á því. Deildarforseti rannsakar málið, boðar nemanda í viðtal, gefur honum kost á andmælum og gerir honum ljóst að forseti viðkomandi fræðasviðs hafi endanlegt úrskurðarvald í málinu af hálfu háskólans. Hafi nemandinn með óyggjandi hætti gerst sekur um háttsemi sem er andstæð lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008, eða reglum settum samkvæmt þeim, getur forseti fræðasviðs veitt honum áminningu eða vikið honum úr háskólanum um tiltekinn tíma eða að fullu, eftir því hversu alvarlegt brot nemandans telst vera. Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun forseta fræðasviðs til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, sbr. 51. gr. reglna nr. 569/2009. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar forseta. Sjá einnig 19. gr. laga um opinbera háskóla.

 Sama síða á öðrum árum