Kæruleiðir og málsmeðferð

Ferli kvartana og kærumála

Um ferli kvartana og kærumála nemenda er fjallað í 50. grein reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 (síðast breytt með reglum nr. 1126/2020). Texti 50. greinar er birtur í heild sinni hér að neðan, með nokkrum krækjum og leturbreytingum til glöggvunar og áhersluauka.

Í stuttu máli er ferli kvartana og kærumála sem hér segir:

  • Telji stúdent brotið á rétti sínum skal hann senda skriflegt erindi til deildarforseta viðkomandi deildar.
  • Deildarforseti skal fjalla um og afgreiða álitaefnið eins fljótt og unnt er, að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða.
  • Deildarforseti skal afgreiða erindi stúdents með formlegu svari.
  • Ef stúdent unir ekki endanlegri ákvörðun deildarforseta getur hann skotið máli sínu til háskólaráðs, að uppfylltum tilsettum skilyrðum.
  • Ákvarðanir háskólaráðs er hægt að kæra til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, að uppfylltum skilyrðum.

Sjá einnig ákvæði um hlutverk og skipun prófdómara og rétt stúdents til að fá útskýringu á einkunn.
Upplýsingar um hlutverk áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.


50. gr. reglna nr. fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009:

Ferli kvartana og kærumála nemenda

Telji stúdent brotið á rétti sínum varðandi kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf, mat á námsframvindu eða annað sem lýtur að kennslu og prófum skal hann senda skriflegt erindi til deildarforseta. Í erindi skal stúdent greina skilmerkilega frá því hvert álitaefnið er, hver sé krafa stúdents og rökstuðning fyrir henni. Varði erindi samskipti nemanda og leiðbeinanda við ritun lokaverkefnis skal deildarforseti leita leiða til að ná sáttum á milli aðila eins fljótt og kostur er. Nýr leiðbeinandi skal ekki skipaður nema sérstaklega standi á.

Deildarforseti skal fjalla um álitaefnið svo fljótt sem unnt er og afgreiða það að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða frá því að erindið barst. Ef mál er viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma, skal tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta. Deildarforseta ber að afgreiða erindi með formlegu svari, hvort sem það lýtur að ákvörðun um réttindi eða skyldur stúdents í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða að öðru leyti að kennslu eða prófum stúdentsins. Deildarforseta er ávallt heimilt að óska eftir afstöðu deildarfundar til erindis. Ef það er gert gilda ákvæði þessarar greinar um málsmeðferð og ákvörðun deildarfundar eftir því sem við á.

Uni stúdent ekki endanlegri ákvörðun deildarforseta um rétt hans eða skyldu á hann kost á að skjóta máli sínu til háskólaráðs. Áður en háskólaráð tekur ákvörðun leitar ráðið álits kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands. Ef erindi nemanda til deildarforseta lýtur ekki að málefni sem lokið verður með endanlegri ákvörðun um réttindi hans eða skyldur getur stúdent borið undir nefndina hvort málsmeðferð deildarforseta á skriflegu erindi hans hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, og skal nefndin þá veita álit sitt um það efni. Deildarforseti, háskólaráð eða kærunefndin endurmeta ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara eða prófdómara.

Umsækjandi um inntöku í framhaldsnám getur borið synjun undir háskólaráð. Áður en háskólaráð tekur ákvörðun leitar ráðið álits kærunefndar. Synjun um inntöku í grunnnám fellur ekki undir ákvæði þetta, sbr. 7. mgr. 47. gr. reglna þessara. Máli verður ekki skotið til háskólaráðs fyrr en endanleg ákvörðun eða afstaða deildarforseta liggur fyrir eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að erindi var fyrst skriflega lagt fyrir deildarforseta.

Ákvarðanir háskólaráðs samkvæmt þessari grein eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Nefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Málum verður ekki skotið til áfrýjunarnefndarinnar fyrr en háskólaráð hefur tekið ákvörðun í málinu eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst skriflega lögð fyrir ráðið. Leiðbeina skal um kæruheimild þegar ákvarðanir samkvæmt þessari grein eru birtar.


Prófdómarar og réttur stúdents til að fá útskýringu kennara á mati úrlausnar

Prófdómari er í öllum munnlegum prófum og í sumum skriflegum prófum. Í prófum þar sem skipaður er prófdómari er fagleg niðurstaða endanleg og verður ekki áfrýjað. Hið sama á við í skriflegum prófum þar sem kennari dæmir einn, nema þar sem skilyrði 59. gr. reglna Háskólans eiga við, þar sem m.a. er kveðið á um að stúdent eigi rétt á að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar, ef hann æskir þess innan fimmtán daga frá birtingu einkunnar. Vilji stúdent, sem ekki hefur staðist próf, þá eigi una mati kennara getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Þetta á þó ekki við um inntökupróf. Einnig getur kennari eða meirihluti nemenda, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. Forseti fræðasviðs skipar prófdómara að fengnum tillögum deildar. Sjá nánar um það í 59. gr. reglna nr. 569/2009. Um verkaskiptingu kennara og prófdómara er fjallað í 60. gr. sömu reglna.

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema

Samkvæmt 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 úrskurðar áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema í málum þar sem námsmenn í ríkisháskólum eða háskólum, sem hlotið hafa staðfestingu menntamálaráðherra, telja brotið á rétti sínum varðandi námsmat, mat á námsframvindu, afgreiðslu umsókna um skólavist o.fl. Nefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Málum verður ekki skotið til áfrýjunarnefndarinnar fyrr en háskólaráð hefur úrskurðað í málinu eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst skriflega lögð fyrir ráðið. Sjá nánari upplýsingar um málskot til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema í 47. gr., 50. gr. og 51. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

 Sama síða á öðrum árum