Menntun framhaldsskólakennara

Þverfræðilegt nám

Nám í Menntun framhaldsskólakennara er þverfræðilegt samvinnuverkefni allra fræðasviða Háskólans. Námi til meistaraprófs (120e) lýkur með MA-, M.Ed.- eða MS-prófi en það er skipulagt fyrir þá sem lokið hafa bakkalárprófi í kennslugrein framhaldsskóla og vilja afla sér kennsluréttinda í faggrein sinni. Einnig er í boði fyrir sama hóp nám til viðbótarprófs á meistarastigi, MT-prófs (120e). Að auki geta þeir sem lokið hafa minnst 120e í kennslugrein framhaldsskóla og meistaraprófi sótt um nám til viðbótardiplómu á meistarastigi (60e). 

Umsóknarfrestur í Menntun framhaldsskólakennara er einu sinni á ári og nám hefst að hausti. Umsóknarfrestur um framhaldsnám sem hefst á haustmisseri rennur út 15. apríl.

Rétt til að nota starfsheitið kennari hefur einstaklingur sem skv. lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla býr yfir almennri hæfni, sbr. 4. gr. laganna (skilgreind sem að lágmarki 60 námseiningar í uppeldis- og kennslufræðigreinum) og sérhæfðri hæfni, sbr. 5. gr.  Kennari þarf að hafa lokið meistaraprófi sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leik,- grunn,- og framhaldskólastigi. Þeir sem brautskrást af námsleiðum í Menntun framhaldsskólakennara teljast hafa sérhæfingu til að kenna á 2.–4. hæfniþrepi framhaldsskóla (sbr. 5. tölulið í 5. gr. laga nr. 95/2019). Að námi loknu geta brautskráðir sótt um leyfisbréf kennara hjá Menntamálastofnun

Yfirlit námsleiða er hér að neðan og hlekki í nánari lýsingu á hverri námsleið fyrir sig má finna á síðunni.


Stjórnsýsla og Námsstjórn um Menntun framhaldsskólakennara
Formaður Námsstjórnar um Menntun framhaldsskólakennara er Atli Vilhelm Harðarson (atlivh[hja]hi.is), prófessor við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði.

Formaður námsbrautar í Kennslufræði framhaldsskóla er Súsanna Margrét Gestsdóttir (susmar[hjá]hi.is), lektor við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði.

Verkefnisstjóri námsins er Adda María Jóhannssdóttir (addamaria[hja]hi.is), Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði. Almennum fyrirspurnum um námið má beina til verkefnisstjóra. 

Stjórnsýsla hins þverfræðilega meistaranáms er í Deild faggreinakennslu en fagleg umsjá þess er í höndum námsstjórnar sem rektor skipar, sbr. samkomulag frá 5. mars 2012 (endurskoðað árið 2018). Námsstjórnin er skipuð átta fulltrúum; fimm samkvæmt tilnefningum stjórna fræðasviða, einum fulltrúa Félags framhaldsskólakennara, einum fulltrúa Skólameistarafélags Íslands og einum fulltrúa sem rektor ákveður og er hann formaður.

Námið er skipulagt í samræmi við gildandi lög um kennaramenntun og samkomulag fræðasviða og deilda Háskóla Íslands um Menntun framhaldsskólakennara.

Meistarapróf, MA, M.Ed., MS (120 einingar, námskeið og lokaverkefni 30e eða stærra)
Meistaranám veitir rétt til lærdómstitilsins MA, M.Ed. eða MS í Menntun framhaldsskólakennara eftir því frá hvaða deild nemi brautskráist. Aðgangskröfur eru bakkalárpróf í kennslugrein eða greinasviði framhaldsskóla, með fyrstu einkunn nema þegar annað er tiltekið. Meistarapróf með lokaverkefni (30e eða stærra) getur veitt aðgang að frekara framhaldsnámi á stigi 3 (doktorsnámi).

Viðbótarpróf á meistarastigi, MT (120 einingar, námskeið, ekkert lokaverkefni eða lokaverkefni minna en 30e)
MT-nám í menntun framhaldsskólakennara við Menntavísindasvið (Deild faggreinakennslu) er svipað námi til M.Ed.-prófs í menntun framhaldsskólakennara (að því undanskildu að í stað 30e lokaverkefnis koma námskeið til 30e og fleiri einingar þarf að taka á kjörsviði/námssviði). MT-nám þar sem nemar brautskrást frá deildum Félagsvísindasviðs og Hugvísindasviðs skiptist í 60e í kennslufræði á Menntavísindasviði og 60e í faggrein í viðkomandi deild. Á öllum MT-leiðunum eru námskeið tekin til 120e nema á einni námsleið þar sem námskeið eru til 100e og einstaklingsverkefni 20e. Aðgangskröfur eru bakkalárpróf í kennslugrein eða greinasviði framhaldsskóla, að öllu jöfnu með fyrstu einkunn. Námið veitir almennt ekki aðgang að námi á stigi 3 (doktorsnámi).

Viðbótardiplóma á meistarastigi (60 einingar, námskeið)
Námið fer fram á Menntavísindasviði. Námið er skipulagt fyrir þá sem hafa þegar lokið meistara- eða doktorsnámi og vilja afla sér kennsluréttinda í grein sinni. Aðgangskröfur eru meistarapróf til viðbótar við bakkalárpróf í kennslugrein eða greinasviði framhaldsskóla.

Kennslufyrirkomulag í Menntun framhaldsskólakennara

Skyldunámskeið í kennslufræði eru skipulögð sem staðnám. Á sumum námsleiðum eru flest önnur námskeið í staðnámi einnig, en á öðrum námsleiðum er námsform mismunandi. Nemendur í meistaranámi (120e) geta skipulagt nám sitt sem fullt nám til tveggja ára eða sem hlutanám sem dreifist á þrjú til fjögur ár. Kjarnanámskeið (40e) ber að taka öll á sama háskólaárinu, að jafnaði á fyrra námsári. Nám til viðbótardiplómu (60e) er skipulagt sem eins árs nám. Námi til viðbótardiplómu er þó hægt er að skipta á tvö ár, 40–50e annað árið og 10–20e hitt árið (að jafnaði eru þá kjarnanámskeið sem ber að taka öll á sama háskólaárinu tekin á fyrra námsári).


Kjarnanámskeið (skyldunámskeið) í kennslufræði og vettvangsnám (40e, allir)

Nemendur á öllum námsleiðum og kjörsviðum taka kjarnanámskeið í kennslufræði ásamt vettvangsnámi. Námskeiðin eru kennd á Menntavísindasviði og eru eftirfarandi:

1. Inngangur að kennslufræði (10e)
Haustmisseri – kennt eftir hádegi á fimmtudögum

2. Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum (10e)
Vormisseri – kennt eftir hádegi á fimmtudögum

3. Faggreinanámskeið með vettvangsnámi 1 og 2 (20e)
Haustmisseri (10e, þar af 5Ve) og vormisseri (10e, þar af 5Ve) – kennd eftir hádegi á miðvikudögum
Fundir í heimaskólum fyrir hádegi á þriðjudögum, auk vettvangsnáms

Nemi velur eitt eftirtalinna faggreinanámskeiða með vettvangsnámi (bæði 1 og 2) út frá þeirri kennslugrein framhaldsskóla sem nemi hefur menntun í og samþykki fyrir inngöngu í nám í Menntun framhaldsskólakennara miðast við:

  • Kennsla samfélagsgreina og vettvangsnám 1 og Kennsla samfélagsgreina og vettvangsnám 2
  • Kennsla erlendra tungumála og vettvangsnám 1 og Kennsla erlendra tungumála og vettvangsnám 2
  • Kennsla íslensku og vettvangsnám 1 og Kennsla íslensku og vettvangsnám 2
  • Kennsla náttúrufræði og stærðfræði og vettvangsnám 1 og Kennsla náttúrufræði og stærðfræði og vettvangsnám 2
  • Kennsla list- og verkgreina  og vettvangsnám 1 og Kennsla list- og verkgreina og vettvangsnám 2

Í kjarnanámskeiðum er lagður grunnur að kennslufræðilegri þekkingu í bóklegu námi og í starfsþjálfun á vettvangi. Námskeið í bóklegum kjarnagreinum og vettvangsnám eru skipulögð sem staðbundið nám. Gert er ráð fyrir vikulegri mætingu í kennslustundir svo og viðveru í vettvangsnámi (um 30 stundir á hvoru misseri auk funda í heimaskóla). Mætingarskylda er í kjarnanámskeið og vettvangsnám. Starfsþjálfun fer fram á starfstíma framhaldsskóla þar sem kennaranemar fá pláss í vettvangsnámi og tímasetning tekur mið af stundaskrá þeirra.

Undanþágur frá staðnámi í kjarnanámskeiðum
Þeir kennaranemar sem búa á landsbyggðinni geta sótt um að fá að taka kjarnanámskeiðin sem kennd eru í háskólanum með þátttöku í kennslustundum á netinu í rauntíma. Þessi möguleiki er háður því hvort framhaldsskóli í heimabyggð geti tekið kennaranema í vettvangsnám.

Þeir kennaranemar sem eru í 50% starfi eða meira sem leiðbeinendur í framhaldsskóla geta sótt um að fá að vera í vettvangsnámi í sínum skóla.

Nemar sem eru í ofangreindri stöðu eru beðnir að hafa samband við verkefnisstjóra á kennsluskrifstofu Menntavísindasviðs fyrir 15. ágúst og í framhaldinu verður athugað hvort og hvernig hægt er að koma til móts við viðkomandi nemanda. Vinsamlega sendið tölvupóst á addamaria[hja]hi.is (úr HÍ-netfangi ef það er til) og látið kennitölu fylgja. Þegar það á við þurfa einnig að fylgja upplýsingar um starfshlutfall, hvaða framhaldsskóla kennt er við og hvaða greinar.

Vettvangsnám
Val á vettvangsskóla er í höndum Menntavísindasviðs en sviðið er í samvinnu við ákveðna skóla, svonefnda heimaskóla. Mætingarskylda er í alla þætti vettvangsnámsins.

Vettvangsnámið felst í vikulegum fundum í heimaskóla, áhorfi og aðstoð og sjálfri æfingakennslunni. Æfingakennslan er skipulögð í samráði við leiðsagnarkennara og getur því farið fram hvenær sem er þótt hvatt sé til að það sé innan vettvangsvikna (sjá dagatal Deildar faggreinakennslu). 

  • Nemi mætir einn morgun í viku í 7–8 vikur á hvoru misseri til að kynna sér starfsemi skólans almennt. Þessir morgnar eru skipulagðir af heimaskólanum undir leiðsögn verkefnisstjóra sem afhendir yfirlit yfir starfsemina á misserinu. Allur morguninn er til ráðstöfunar en almennt eru fundir þó ekki lengri en tvær klukkustundir í senn.
  • Hver nemi er í áhorfi/aðstoð að lágmarki 40 kennslustundir (miðað við 40 mínútna kennslustundir) hjá kennurum heimaskólans á námstímanum, eða u.þ.b. 20 kennslustundir á hvoru misseri. Auk þess eru nemar hvattir til að vera í áhorfi hver hjá öðrum.
  • Hver nemi skipuleggur í samráði við leiðsagnarkennara í heimaskóla og kennir sem svarar 8×40 mínútur á haustmisseri og 12×40 mínútur á vormisseri. 

Valnámskeið í uppeldis- og kennslufræði (mest 20 einingar, misjafnt eftir námsleiðum): 

Valnámskeið skipuleggja stúdentar sjálfir og þurfa að gæta að forkröfum og að flest valnámskeið á Menntavísindasviði eru kennd í fjarnámi með staðlotum þar sem oft er skyldumæting.

Nánari upplýsingar um námskröfur, þátttöku og kennslufyrirkomulag er að finna í námskeiðslýsingum einstakra námskeiða í viðkomandi deildum. Í kennsluáætlun hvers námskeiðs er gerð grein fyrir notkun kennslukerfa á neti, skipulagi kennslu þar sem fram kemur hvort um er að ræða staðnám eða fjarnám, tímasetningu staðlotna í fjarnámi og mætingarskyldu eftir því sem við á.


Kjörsvið í MA og MS-námi, og MT-námi fyrir utan MT-námi í Deild faggreinakennslu (60 einingar, að öllu jöfnu): 

Nemi velur kjörsvið miðað við þá kennslugrein framhaldsskóla sem hann hefur bakkalárpróf í. Kjörsviðið segir til um þá deild (heimadeild) sem nemi verður skráður í og mun brautskrást frá að náminu loknu, eftir atvikum með sameiginlega prófgráðu frá Deild faggreinakennslu og annarri deild.

Til kjörsviðs telst faghluti námsins og fellur lokaverkefni þar undir að hluta eða öllu leyti. Reglum heimadeildar um lokaverkefni skal fylgt. 

Kjörsvið í M.Ed.- og MT-námi við Deild faggreinakennslu (30 einingar M.Ed., 40 einingar MT):
Nemar velja eitt kjörsvið (námssvið) sem felur í sér sérhæfingu í ákveðnum viðfangsefnum skólastarfs þvert á námsgreinar.

Yfirlit námsleiða og kjörsviða í meistaranámi
Bakgrunnur umsækjanda Námsleið og kjörsvið í grein eða á námssviði

 

Bakkalárpróf í viðkomandi kennslugrein framhaldsskóla
á sviði
félagsvísinda eða
menntavísinda

MA- og MT-nám í Menntun framhaldsskólakennara á Félagsvísindasviði og Menntavísindasviði með kjörsvið í kennslu greinar (grein segir til um heimadeild):

  • Félagsfræðikennsla, MA (Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild)
  • Mannfræðikennsla, MA (Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild)
  • Þjóðfræðikennsla, MA (Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild)
  • Kennsla félagsfræði, mannfræði og þjóðfræði, MT (Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild)
  • Kynjafræðikennsla, MA (Stjórnmálafræðideild)
  • Stjórnmálafræðikennsla, MA (Stjórnmálafræðideild)

  • Uppeldis- og menntunarfræðikennsla, MA (Deild menntunar og margbreytileika)
  • Tómstunda- og félagsmálafræðikennsla, MA (Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda)

 

Bakkalárpróf í viðkomandi kennslugrein framhaldsskóla
á sviði
hugvísinda

MA- og MT-nám á Hugvísindasviði með áherslu á kennslu greinar:

  • Íslenskukennsla, MA/MT (Íslensku- og menningardeild)
  • Dönskukennsla, MA (Mála- og menningardeild)
  • Enskukennsla, MA (Mála- og menningardeild)
  • Frönskukennsla, MA (Mála- og menningardeild)
  • Spænskukennsla, MA (Mála- og menningardeild)
  • Þýskukennsla, MA (Mála- og menningardeild)
  • Tungumálakennsla, MT (Mála- og menningardeild)
  • Heimspekikennsla, MA/MT (Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði)
  • Sögukennsla, MA/MT (Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði)

 

Bakkalárpróf í viðkomandi kennslugrein framhaldsskóla
á sviði
félagsvísinda,
heilbrigðisvísinda eða
raunvísinda

MS-nám í Menntun framhaldsskólakennara á Félagsvísindasviði, Heilbrigðisvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði með kjörsvið í kennslu greinar (grein segir til um heimadeild):

  • Hagfræðikennsla (Hagfræðideild)
  • Viðskiptafræðikennsla (Viðskiptafræðideild)

  • Næringarfræðikennsla (Matvæla- og næringarfræðideild)
  • Sálfræðikennsla (Sálfræðideild)

  • Tölvunarfræðikennsla (Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild)
  • Jarðvísindakennsla (Jarðvísindadeild)
  • Landfræðikennsla (Líf- og umhverfisvísindadeild)
  • Líffræðikennsla (Líf- og umhverfisvísindadeild)
  • Ferðamálafræðikennsla (Líf- og umhverfisvísindadeild)
  • Eðlisfræðikennsla (Raunvísindadeild)
  • Efnafræðikennsla (Raunvísindadeild)
  • Stærðfræðikennsla (Raunvísindadeild)

 

Bakkalárpróf í einhverri kennslugrein framhaldsskóla á sviði
list- og verkgreina,
menntavísinda,
félagsvísinda,
hugvísinda,
heilbrigðisvísinda eða
raunvísinda

M.Ed.- og MT-nám í Menntun framhaldsskólakennara í Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði. Kjörsvið (námssvið) eru þvert á greinar:

  • Grunnþættir og gildi: Sjálfbærni – jafnrétti – lífsleikni
  • Kyn og jafnrétti
  • Nám og kennsla í skóla án aðgreiningar í fjölmenningarsamfélagi
  • Námskrárþróun, námsmat og námsefnisgerð
  • Skólaþróun og mat á skólastarfi
  • Upplýsingatækni í skólastarfi



Mat á námi umsækjenda sem sækja um greinar sem þeir hafa ekki bakkalárpróf í

Að jafnaði þurfa umsækjendur að hafa minnst 120e í einhverri af ofantöldum kennslugreinum til þess að fá inngöngu í námið. Hafi þeir færri einingar geta þeir þó sótt um inngöngu í námið en geta þá þurft að bæta við sig námi á bakkalárstigi. 

 

 Sama síða á öðrum árum