Umhverfis- og auðlindafræði

Öll fræðasvið Háskóla Íslands standa að þverfræðilegu og alþjóðlegu framhaldsnámi í umhverfis- og auðlindafræði: menntavísindasvið, heilbrigðisvísindasvið, félagsvísindasvið, hugvísindasvið og verkfræði- og náttúruvísindasvið. Boðið er upp á meistaranám (120e) og doktorsnám (180e), auk viðbótarnáms á meistarastigi (30e). 

Námið er þverfræðilegt og gert ráð fyrir að nemendahópurinn sé með fjölbreyttan bakgrunn. Nemendur í meistara- og doktorsnámi brautskrást frá mismunandi deildum eftir áherslum þeirra í meistara- og/eða doktorsritgerð. Heimadeild aðalleiðbeinanda segir til um frá hvaða deild nemandi brautskráist, að námi loknu. Kennt er alfarið á ensku og nemendahópurinn er alþjóðlegur. 

Akademískir starfsmenn eru ráðnir beint til námsins og eru staðsettir við mismunandi deildir háskólans. Rektor Háskóla Íslands skipar stjórn meistara- og doktorsnáms í umhverfis- og auðlindafræðum, sbr. 4. gr. reglna nr. 214/2011 um námið.  

Dagleg umsýsla og upplýsingar um námið veitir:
Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir, Verkefnisstjóri námsins
umhverfi@hi.is 

Meistaranám

Meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum er 2 ára (120 ECTS) þverfræðilegt, rannsóknartengt nám sem veitir menntun á sviðum sem tengjast umhverfismálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Kennt er alfarið á ensku. Ljúka þarf 120 einingum fyrir lokapróf. Námið samanstendur af skyldunámskeiðum (23-35 ECTS), einu námskeiði í rannsóknaraðferðum (bundið val) sem tengist viðfangsefni meistaraverkefnis, valnámskeiðum og meistaraverkefni. Meistaraverkefnið er 30 eða 60 einingar. Námskeið eða annað nám er þá ýmist 60 eða 90 einingar. Nemendur brautskrást með MA/MS í umhverfis- og auðlindafræði. 

Viðbótarnám (diplóma) á meistarastigi

Viðbótarnám á meistarastigi í umhverfis- og auðlindafræði er fræðilegt, eins misseris fullt nám eða tveggja missera hlutanám við Háskóla Íslands. Námið er 30 ECTS sem meta má til eininga til meistaraprófs í námsgreininni. Kennt er alfarið á ensku. Nemendur brautskrást frá Líf- og umhverfisvísindadeild. 

Athugið að öll skyldunámskeið og flest valnámskeið eru skipulögð sem staðnám yfir heilt misseri. Sum eru kennd í lotum. Námið hentar því ekki í öllum tilfellum sem nám með fullri vinnu.

Doktorsnám

Doktorsnám er þriggja til fjögurra ára rannsóknatengt framhaldsnám í Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Námið er 180 ECTS og leiðir til prófgráðunnar philosophiae doctor, Ph.D. Doktorsnámið felst einkum í rannsókn sem lýkur með doktorsritgerð. Þó getur doktorsnefnd gert kröfu um að nemandi í doktorsnámi ljúki einnig námskeiðum. Doktorsverkefni skal vera 180 einingar. Einingar fyrir námskeið bætast ofan á þær einingar sem gefnar eru fyrir doktorsverkefnið. Nemendur brautskrást með Ph.D. í Umhverfis- og auðlindafræði. 

umhverfi.hi.is

 Sama síða á öðrum árum